Innlent

Líklegast munu allir vökna

Hvar sem frómur flækist um þessa verslunarmannahelgi er það líklega skynsamlegast að hafa regngallann með eins og þetta fólk gerði í Húsafelli í fyrra.
Hvar sem frómur flækist um þessa verslunarmannahelgi er það líklega skynsamlegast að hafa regngallann með eins og þetta fólk gerði í Húsafelli í fyrra. Mynd/Anton
Veðurfræðingar eru ekki öfundsverðir nú fyrir verslunarmannahelgina þegar öll spjót standa á þeim en veruleg óvissa ríkir enn um veðurhorfur næstu fjóra daga, að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Því veldur að óvíst er hvort lægð, sem nú er vestur í hafi, fer með anga sína yfir landið eður ei. Hann hvetur því fólk til að vera við öllu búið hvar sem það verður á landinu.

„Það er útlit fyrir að enginn landshluti sleppi við vætu," segir hann enn fremur. „Hún verður líklegast á vestanverðu landinu á föstudag og laugardag en færist síðan yfir austanvert landið á sunnudag og mánudag." Þó segir hann nokkrar líkur á því að Vestfirðir vökni ekki um verslunarmannahelgina.

„Það er heldur ekki ljóst hvernig vindurinn verður en ég myndi búast við því að það verði austanátt, ekki of sterk þó og þá hvössust hér sunnanlands en annars er þetta mjög óljóst ennþá," segir hann.

Útlit er fyrir að fólk á Norðausturlandi verði að bretta niður ermarnar þegar líður á helgina. Þar hefur nú verið bongóblíða síðustu daga og hitinn farið jafnvel yfir tuttugu stig en gæti orðið um og undir tíu stigum á sunnudag og mánudag.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×