Erlent

Obama styður kröfur Palestínumanna

Bandaríkjaforseti hvetur Ísraela til að fallast á landamæri Palestínu frá 1967, en styður hins vegar ekki einhliða stofnun Palestínuríkis í haust. Hann telur sættir Fatah og Hamas torvelda friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela.
Bandaríkjaforseti hvetur Ísraela til að fallast á landamæri Palestínu frá 1967, en styður hins vegar ekki einhliða stofnun Palestínuríkis í haust. Hann telur sættir Fatah og Hamas torvelda friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela. Mynd/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti styður kröfu Palestínumanna um að væntanlegt ríki þeirra miðist við landamærin eins og þau voru árið 1967, áður en Ísraelar hertóku Vesturbakkann og Gasasvæðið. Þetta kom fram í ræðu hans um málefni Mið-Austurlanda í gær.

 

Þetta er stefnubreyting af hálfu Bandaríkjanna, því síðan 2004 hafa þau haft þá afstöðu að kröfu Palestínumanna um landamærin frá 1967 þurfi að laga að kröfu Ísraela um að öryggi þeirra verði tryggt.

 

Bandaríkin hafa því til þessa í reynd verið á bandi Ísraela, sem vilja semja við Palestínumenn um endanlega legu landamæranna en ekki ganga út frá því fyrirfram að miða eigi við landamærin frá 1967.

 

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, brást við með því að ítreka þá afstöðu Ísraela, að landamærin frá 1967 séu óverjanleg. Ísraelar gætu ekki varið sig gegn árásum, verði þau landamæri notuð.

 

Palestínumenn hafa í reynd gefist upp á viðræðum við Ísraela og fara nú fram á alþjóðlegan stuðning við einhliða stofnun Palestínuríkis í haust.

 

Obama sagðist í ræðu sinni hins vegar ekki styðja þau áform, sem gætu aldrei orðið annað en táknræn: „Táknrænar aðgerðir, sem þjóna þeim tilgangi að einangra Ísrael á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í september, verða ekki til þess að sjálfstætt ríki verði til.“

 

Hann sagðist einnig líta svo á að sættir tveggja helstu fylkinga Palestínumanna, Fatah og Hamas, muni torvelda friðarviðræður við Ísraela.

Ísraelar hafa væntanlega einnig orðið fyrir vonbrigðum með að Obama notaði ekki tækifærið til þess að fordæma Íran harðlega í ræðu sinni.

Hann sakaði Írana hins vegar um hræsni og ítrekaði andstöðu Bandaríkjanna við kjarnorkuvopnaáform Írans og stuðning Írana við hryðjuverkasamtök. Annars eyddi hann ekki mörgum orðum á Írani, lét nægja að segja afstöðu sína vel þekkta og dró ekki upp þá mynd af Íran, sem forveri hans í embætti gerði stundum, að Íran væri ljótasti skúrkurinn í Mið-Austurlöndum.

Þess í stað varði hann töluverðum tíma í að hvetja stjórnvöld í Barein og á Sýrlandi til þess að hætta að beita ofbeldi til að kæfa niður mótmæli. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×