Kíkir Stjörnustöðvar Evrópulanda á Suðurhveli (ESO) náði á dögunum einstaklega glæsilegri mynd af tveimur vetrarbrautum í órafjarlægð frá jörðu.
Vetrarbrautirnar eru jafnan kallaðar Augun og eru í 50 milljóna ljósára fjarlægð frá stjörnumerkinu Meyjunni.
Viðurnefnið er skiljanlegt þar sem þær minna óneitanlega á augu. Allt tal um vegalengdir er þó afstætt því að milli þeirra eru um 100 þúsund ljósár.
Talið er líklegt að einhvern tíma í fyrndinni hafi vetrarbrautirnar rekist saman. Vegna þess er rykský í kringum vetrarbrautina sem er ofar á myndinni. Það sama gæti hent okkar vetrarbraut og Andrómedu, sem liggur okkur næst.
Ekkert er þó að óttast enn um sinn þar sem það verður ekki fyrr en eftir um 3 til 4 milljarða ára.- þj
Augu Meyjunnar stara í tómið
