Erlent

„Whitey" Bulger handtekinn í Santa Monica

MYND/AP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur handtekið James "Whitey" Bulger, glæpaforingja frá Boston sem hefur verið á flótta í sextán ár. Bulger var efstur á lista þeirra sem alríkislögreglan vill ná í eftir að Osama Bin Laden var drepinn í Pakistan á dögunum.

Illa hefur gengið að ná í skottið á honum, en eftir að lögreglan ákvað að lýsa eftir kærustu hans í byrjun vikunnar virðast hjólin hafa farið að snúast. Parið var handtekið í Santa Monica í Kalíforníu og gáfust þau upp án mótþróa. Bulger er rúmlega áttræður og kærastan tuttugu árum yngri.

Hann stjórnaði alræmdri glæpaklíku í Boston á sínum tíma en auk nítján morða er Bulger sakaður um fjárkúgun, eiturlyfjasölu, fjárkúgun og peningaþvætti. Bróðir hans var á sínum tíma forseti þingsins í Massachussets og sjálfur var Bulger mikilvirkur uppljóstrari fyrir FBI.

Stofnunin hefur því legið undir ámæli fyrir að gera ekki nægilega mikið til þess að ná í hann en hann lagði á flótta árið 1995 eftir að fyrrum starfsmaður FBI varaði hann við.

Bíómynd Martins Scorsese, The Departed, er sögð innblásin af ferli Bulgers og einnig voru sjónvarpsþættirnir Brotherhood, sem sýndir voru hér á landi byggðir á Bulger bræðrunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×