Það hljóp aldeilis á snærið hjá gestum á Islandia Hótel að Núpum nærri Kirkjubæjarklaustri. Gestirnir, sem eru frá Hollandi og Frakklandi, auk Íslendinga, höfðu ekki átt von á því að verða vitni að eldgosi þegar þeir pöntuðu sér gistingu. Þeim brá því heldur betur í brún þegar Vatnajökull tók að gjósa um sjöleytið í kvöld. Líklegast er að það séu Grimsvötn sem gjósi, eins og fram hefur komið.
„Já, já. Þeim finnst þetta bara mjög spennandi - en fannst þetta ekkert mjög spennandi fyrst," segir Sigrún Kapitola Guðrúnardóttir hótelstjóri. Hún segir að það hafi sótt svolítinn ugg að gestunum fyrst, en núna séu þeir miklu rólegri og njóti þess bara að sjá þetta.
Það hefur verið töluverð umræða í dag um að heimsendir sé á næsta leiti vegna auglýsinga sem útvarpspredikarinn Harold Camping útvarpspredikari hefur birt víða um heim að undanförnu. Sigrún segir þó að gestirnir séu hinir rólegustu og tengi gosið og heimsendaspár Campings ekki saman. Nei nei, þeir hafa ekki haft orð á því, enda er bara fallegur dagur og ég held að þetta sé bara til að fagna þvi að við erum hérna. Þannig að við erum ekkert að tengja þetta heimsendi," segir Sigrún.
Myndina sem fylgir fréttinni tók Halldóra Kristín, starfsmaður á Hótelinu að Núpum.
Innlent