Erlent

Taka við tilnefningum um nýjan forstjóra AGS

Mynd/AFP
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti í gærkvöldi að byrjað yrði á mánudaginn að taka við tilnefningum að nýjum yfirmanni sjóðsins, eftirmanni Dominique Strauss-Kahn sem sagði af sér í síðustu viku eftir að herbergisþerna á hóteli í New York kærði hann fyrir nauðgun.

 

Aðildarlönd sjóðsins geta sent inn tilnefningar frá 23. maí til 10. júní næstkomandi. Því næst myndi stjórn sjóðsins velja þrjú nöfn sem koma til greina og birta opinberlega. Talið er líklegt að evrópuþjóðir muni koma sér saman um einn fulltrúa fyrir þeirra hönd en hvert land hefur hlutfallslegan atkvæðarétt. Stefnt er að því að endanleg ákvörðun um ráðningu muni liggja fyrir eigi síðar en 30.júní.

Af Strauss-Kahn er það að frétta að honum var sleppt úr fangelsi, gegn milljón dollara tryggingargjaldi, í gær en hann verður undir sólarhringseftirliti öryggisvarða í íbúð í New York þar til réttarhöld yfir honum hefjast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×