Erlent

Verra fyrir þekkta en óþekkta

Búist er við að Joly bjóði sig fram til forseta í Frakklandi. Dominique Strauss-Kahn var líka talinn líklegur til að bjóða sig fram. Fréttablaðið/Valli
Búist er við að Joly bjóði sig fram til forseta í Frakklandi. Dominique Strauss-Kahn var líka talinn líklegur til að bjóða sig fram. Fréttablaðið/Valli
Fyrrverandi dómsmálaráðherra Frakka, Elisabeth Guigou, segir myndbirtingu af Dominique Strauss-Kahn, þar sem hann er leiddur um í járnum, ógeðfellda og grimmdarlega. Hún stóð sjálf fyrir setningu laga í Frakklandi sem banna birtingu slíkra mynda.

New York Times leitaði álits Evu Joly á ummælum Guigou, en Joly sótti Strauss-Kahn eitt sinn til saka fyrir spillingu (sem hann var sýknaður af) og leiðir flokk Græningja í Frakklandi. Búist er við því að hún bjóði sig fram til forseta á næsta ári.

Joly tekur undir að myndirnar séu sláandi, en bætir við að myndbirting af þessu tagi geti verið meira áfall fyrir þekkt fólk en óþekkt. „En bandarískt réttarkerfi gerir ekki upp á milli framkvæmdastjóra AGS og annarra grunaðra. Að baki liggur hugmyndin um að allir njóti sama réttar," sagði hún við New York Times.

Joly bendir líka á að réttarkerfi Frakklands og Bandaríkjanna séu afar ólík. Saksóknarar vestra þurfi að taka mið af því að þeir þurfi að sannfæra kviðdóm um sekt viðkomandi. Eins og er notast franskir dómstólar ekki við kviðdóm, en það kann þó að breytast gangi í gegn breytingar sem Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur lagt til. Þá myndu verða kallaðir til kviðdómendur í alvarlegum afbrotamálum, svo sem nauðgunarmálum.

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×