Körfubolti

Boston-menn ætla treysta á hinn 39 ára gamla Shaq

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O’Neal.
Shaquille O’Neal. Mynd/AP
Shaquille O’Neal heldur upp á 39 ára afmælið sitt í næstu viku (6. mars) og eftir skipti gærdagsins í NBA-deildinni í körfubolta þá er ljóst að Boston Celtics ætlar að treysta á framgöngu "The Diesel" þegar kemur að því að verja teiginn í komandi úrslitakeppni.

„Við verðum að fá Shaq heilan til baka. Ef Shaq mun spila vel þá eru þessi skipti náttúrulega frábær fyrir okkur. Þetta snýst um Shaq og að hann komi sér í gott form. Það verður mjög mikilvægt að koma honum í gírinn fyrir úrslitakeppnina," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston Celtics.

Boston lét frá sér tvo miðherja, Kendrick Perkins og Semih Erden, auk þess að missa líka kraftframherjann Luke Harangody og bakverðina Marquis Daniels og Nate Robinson. Í staðinn fékk Boston miðherjann Nenad Krstic og framherjann Jeff Green auk valrétta í nýliðavalinu.

„Við verðum bara að sjá til hvernig þetta þróast. Okkur hefur gengið vel þegar Shaq hefur spilað," sagði Rivers en Shaq hefur verið í vandræðum með hásinina sína að undanförnu.

Shaquille O’Neal hefur spilað 36 af 56 leikjum liðsins á tímabilinu og Boston hefur unnið 27 þeirra. Shaq er með 9.3 stig og 4,9 fráköst að meðaltali á 20,4 mínútum. Hann var með 12,0 stig og 6,7 fráköst á 23,2 mínútum í leik með Cleveland á síðasta tímabili.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×