Innlent

Eigandi geitabús í fjárhagskröggum - lítil viðbrögð frá hinu opinbera

Eigandi stærsta geitabús landsins að Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði berst nú í bökkum fjárhagslega og segir framhaldið velta á þolinmæði bankans. Hún segir viðbrögð frá hinu opinbera vera lítil sem engin.

Jóhanna hefur ræktað geitur í rúm tuttugu ár og náð góðum árangri. Í vetur voru þær um 150 talsins en ört fjölgaði í þeirra hópi í vor og eru nú um þrjú hundruð.

Geitabú Jóhönnu er það stærsta á landinu. Hún hefur gert tilraunir með framleiðslu á geitaosti og mjólk, sápum, húfum og innleggjum í skó svo eitthvað sé nefnt.

Jóhanna hefur þó ekki leyfi til að fara í fulla framleiðslu á geitamjólk og afurðum þar sem byggja þarf upp aðstoðu sem kostar tugi milljóna samkvæmt reglum. Slíkt fjármagn á hún ekki til.

Hún fær um 6500 krónur í stofnverndarframlag á hverja geit til að viðhalda íslenska geitastofninum. Það gera um hundrað og þrjátíu þúsund á ári en slíkt framlag fær hún eingöngu fyrir tuttugu geitur en ekkert umfram þann fjölda. Þetta er eini opinberi styrkurinn sem hún fær.

Til samanburðar fá sauðfjárbændur í framleiðslu, beingreiðslur og gæðastýringarálag úr ríkissjóði og ullin fæst niðurgreidd. Auk þess fá þeir greiðslur frá sláturhúsum.

Jóhanna segir geitfjárgreinina standa illa á Íslandi. Íslenski geitastofninn sé rýr og mesta hættan sé að stofninn verði of einsleitur. Hún segir reksturinn þungan og erfitt sé að ná endum saman. Það velti hins vegar allt á bankanum og skýrist betur í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×