Innlent

Bræður grunaðir um að kaupa þýfi

Lögregla gerði húsleit hjá bræðrunum.
Lögregla gerði húsleit hjá bræðrunum.

Tveir erlendir bræður hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 11. febrúar vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tugum innbrota og þjófnaðarmála.

Fyrir sitja í gæsluvarðhaldi tveir sautján ára piltar og 23 ára maður sem hafa játað á sig um sjötíu innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Verðmæti þýfisins getur numið tugum milljóna króna.

Bræðurnir voru handteknir á föstudagsmorguninn síðastliðinn og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Fram kemur í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kröfu um gæsluvarðhald yfir þeim að annar þeirra hafi tekið við þýfinu og að hann hafi staðgreitt fyrir það með reiðufé.

Fyrir liggi símagögn sem staðfesta samskipti á milli þremenninganna sem sátu fyrir í gæsluvarðhaldi og bróðurins og beri gögnin það með sér að þeir hafi verið að eiga viðskipti með þýfi.

Við húsleit hjá bræðrunum hafi lögregla fundið ýmsa muni sem grunur er um að sé þýfi þar á meðal tölvur, sjónvarp og peninga. Þá hafi lögregla einnig fundið á heimili þeirra bræðra kvittanir sem bendi til útflutnings á peningum og séu flestar kvittanirnar stílaðar á nafn hins bróðurins.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×