Innlent

Fluttur á sjúkra­hús eftir að bát hvolfdi

Eiður Þór Árnason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn í mesta forgangi. 
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn í mesta forgangi.  Vísir/vilhelm

Einn var fluttur á sjúkrahús í kvöld eftir að bát hvolfdi í Hvalfirði. Tilkynning barst um málið á áttunda tímanum og var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, lögregla, áhöfn á sjómælingaskipinu Baldri og sjóbjörgunarsveitir kallaðar út.

Að sögn Landhelgisgæslunnar sögðu vegfarendur bátinn vera um 300 metra frá landi og að maður hafi sést á kili bátsins. Björgunarsveitir frá Akranesi, Kjalarnesi og Reykjavík hafi þá haldið á staðinn og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar verið ræst út á mesta forgangi.

Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni að þegar þyrlusveit og björgunarsveitarfólk var komið á vettvang hafi manninum tekist að komast að sjálfsdáðum í land. Viðbragðsaðilar hafi þá hlúið að manninum sem var bæði kaldur og blautur eftir óhappið. Hann var loks fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík til frekari skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×