Innlent

Strákar hreyfa sig meira en stelpur

Talið er að mikill meirihluti barna hér á landi hreyfi sig allt of lítið. fréttablaðið/stefán
Talið er að mikill meirihluti barna hér á landi hreyfi sig allt of lítið. fréttablaðið/stefán
Allt of fá níu og fimmtán ára börn hér á landi hreyfa sig nægjanlega lengi af meðalerfiðri og erfiðri ákefð dag hvern. Drengir virðast hreyfa sig meira en stúlkur og það mælast neikvæð tengsl milli hreyfingar og holdafars íslenskra barna.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var á tímabilinu september árið 2003 til janúar árið 2004 í átján skólum á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýlis- og dreifbýliskjörnum á Norðausturlandi. Alls skiluðu 176 níu ára krakkar nothæfum gögnum til rannsóknarinnar og 162 fimmtán ára krakkar.

Meginniðurstöðurnar voru þær að mikilvægt sé að auka meðalerfiða og erfiða hreyfingu barna á skólaaldri og nauðsynlegt sé að rannsaka hvaða leiðir séu færar í þeim efnum.

Strákar hreyfðu sig að jafnaði meira en stelpur og þeir sem voru níu ára hreyfðu sig meira en þeir sem voru fimmtán ára. Niðurstöðurnar sýndu einnig fram á að þeir þátttakendur sem voru með meiri fitu undir húð, hreyfðu sig minna samanborið við jafnaldra sína.

Rannsóknin er birt í 2. tölublaði Læknablaðsins 2011. Hún styður niðurstöður fjölda erlendra rannsókna um sama efni, hvað varðar muninn á meðalerfiðri og erfiðri hreyfingu milli kynja. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×