Innlent

Íslendingum fjölgar að nýju

Íslendingar eru nú 318.452 talsins. Hlufall kvenna hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár.Fréttablaðið/Heiða
Íslendingar eru nú 318.452 talsins. Hlufall kvenna hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár.Fréttablaðið/Heiða
Íslendingum fjölgaði um 822 á árinu 2010, en 1. janúar síðastliðinn voru landsmenn 318.452 talsins og hafði fjölgað um 0,3 prósent milli ára, að því er fram kemur í nýjustu tölum Hagstofu Íslands. Fjöldinn hefur þó ekki enn náð hámarkinu sem var árið 2009, þegar 319.368 bjuggu á landinu.

Íbúum fækkaði milli ára í fimm af átta landshlutum, hlutfallslega mest á Vestfjörðum þar sem fækkunin nam 3,1 prósenti, en 225 íbúar fluttu þaðan. Mesta fækkunin var þó á Suðurnesjum, en íbúar þar eru nú 271 færri en í upphafi síðasta árs.

Kynja- og aldursskipting þjóðarinnar hefur einnig breyst milli ára þar sem konum fjölgar og meðalaldur hækkar.

Í ársbyrjun var meðalaldur Íslendinga 36,6 ár en var 36,4 árið áður.

Hlutföll kynjanna meðal landsmanna eru nú óðum að jafnast og eru nú 50,2 prósent karlmenn, en árið 2008 var hlutfallið 51 prósent. Konum hefur fjölgað statt og stöðugt á þessum árum, en körlum fækkar. Má þar sennilega telja til brottflutning erlendra vinnumanna, sem og útrás íslendinga í vinnu erlendis. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×