Sandnes Ulf vann í dag 3-0 sigur á Hödd og er fyrir vikið með fimm stiga forystu á toppi norsku B-deildarinnar. Steinþór Freyr Þorsteinsson og Ingimundur Níels Óskarsson eru báðir á mála hjá Sandnes Ulf.
Aðeins tvö stig skilja að liðin í öðru til fimmta sæti en efstu tvö lið deildarinnar komast beint upp í úrvalsdeildina. Steinþór Freyr var í byrjunarliði Sandnes Ulf en var tekinn af velli á 75. mínútu. Ingimundur Níels kom svo inn á sem varamaður og spilaði síðustu fimm mínúturnar.
Sandnes Ulf stendur því vel að vígi í toppbaráttunni en enn eru þrjár umferðir óleiknar auk þess sem nokkur lið við toppinn eiga leik til góða.
Guðmann Þórisson spilaði allan leikinn fyrir Nybergsund sem tapaði fyrir Ranheim á útivelli í sömu deild, 4-1. Þrjú neðstu liðin falla um deild og er Nybergsund nú í þriðja neðsta sætinu, níu stigum á eftir næsta liði þegar þrjár umferðir eru eftir. Það er því nánast útilokað að liðið bjargi sér frá falli úr þessu.
Það var einnig mikilvægur leikur í toppbaráttu sænsku B-deildarinnar í dag. Ängelholm vann þá 3-0 sigur á Öster í Íslendingaslag og er nú jafnt Sundsvall að stigum á toppi deildarinnar. Bæði lið eru með 52 stig en Sundsvall á þó leik til góða.
Heiðar Geir Júlíusson kom inn á sem varamaður í liði Ängelholm og spilaði síðustu tíu mínúturnar í leiknum. Ängelholm hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir þennan og sigurinn því mikilvægur.
Davíð Þór Viðarsson spilaði að venju allan leikinn í liði Öster sem er í fimmta sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliðunum tveimur.
