Íslenski boltinn

Valsmenn urðu meistarar þegar þeir unnu FH síðast á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik Vals og FH á Vodafone-vellinum í fyrra.
Úr leik Vals og FH á Vodafone-vellinum í fyrra. Mynd/Valli
Lengjubikar- og Reykjavíkurmeistarar Valsmanna taka á móti FH-ingum í stórleik kvöldsins í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla en leikurinn fer fram á Vodafone-vellinum klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

FH-ingum var spáð meistaratitlinum í öllum spám og þetta verður því stórt próf fyrir strákana hans Kristjáns Guðmundssonar sem hafa spilað mjög vel á undirbúningsmótinu.

Valsmönnum hefur ekki gengið vel með FH-liðið síðustu ár og hafa í raun aðeins unnið einn af síðustu átta heimaleikjum sínum á móti FH í úrvalsdeildinni. Eini sigurinn kom á Laugardalsvellinum 27. júní 2007 en Valsmenn unnu þá 4-1 sigur.

Þetta er eini heimasigur Valsmanna á FH frá og með árinu 1996 en þetta er líka eina árið sem Valsmenn hafa orðið Íslandsmeistarar á þessum tíma.

Það má einnig á móti benda á það að FH-ingar hafa orðið Íslandsmeistarar í síðustu fjögur skipti sem þeir hafa haldið marki sínu hreinu í útileiknum á móti Val.

Síðustu heimaleikir Valsmanna á móti FH í deildinni:2010 - Vodafonevöllurinn 2-2 jafntefli

2009 - Vodafonevöllurinn 0-5 tap (FH Íslandsmeistari)

2008 - Vodafonevöllurinn 0-1 tap (FH Íslandsmeistari)

2007 - Laugardalsvöllur 4-1 sigur (Valur Íslandsmeistari)

2006 - Laugardalsvöllur 0-2 tap (FH Íslandsmeistari)

2005 - Hlíðarendi 0-1 tap (FH Íslandsmeistari)

2003 - Hlíðarendi 2-3 tap

2001 - Hlíðarendi 1-2 tap

- Valsmenn voru í B-deildinni sumrin 2002 og 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×