Innlent

Í fangelsi fyrir að stela kjúklingabitum og golfkylfu

Tvítugur maður var dæmdur í 6 mánaða óskilorðsbundið fangelsi á fimmtudaginn í síðustu viku í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir fjölmörg brot.

Maðurinn er djúpt sokkinn í fíkniefnaneyslu samkvæmt dómi héraðsdóms en maðurinn var dæmdur fyrir nytjastuld á bifreið, fyrri að hafa stolið kjúklingabitum, brotist inn í golfskála og gripið með sér áfengi og golfkylfu.

Þá braust hann inn í Frumherja á Akureyri en forðaði sér af vettvangi þegar þjófavarnakerfið fór af stað. Maðurinn er einnig dæmdur fyrir fíkniefna- og umferðalagabrot.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og var það talið honum til tekna. Samkvæmt dómsorði hefur maðurinn margsinnis komist í kast við lögin síðan hann var sautján ára gamall vegna fíkniefnaneyslu sinnar. Maðurinn rauf reynslulausn með afbrotum sínum nú og var dómurinn því óskilorðsbundinn.

Þá var hann sviptur ökuréttindum í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×