Skoðun

Nýjung á Alþingi í dag - Útbýting þingskjala á vefnum

Ásta R. Jóhannesdóttir skrifar
Í kjölfar nýrra þingskapa verða margar nýjungar í störfum Alþingis á þessum vetri. Í dag, föstudag, verður í fyrsta sinn útbýtt þingskjölum á vef þingsins á milli þingfunda. Þetta var samþykkt með breytingum á þingsköpum í júní. Telst útbýting þingskjala á vef þingsins jafngilda útbýtingu á þingfundi. Hingað til hefur skjölum aðeins verið útbýtt á þingfundi. Breytingarnar munu hafa í för með sér mikla vinnuhagræðingu.

Forseti Alþingis hefur í samræmi við ný þingsköp sett reglur um útbýtingu þingskjala á vef þingsins og í dag verður þingskjölum útbýtt þannig í fyrsta sinn. Í upphafi næsta fundar Alþingis mun forseti síðan lesa upp hvaða þingskjölum hefur verið útbýtt á vefnum og einnig hvaða þingskjölum verður útbýtt á þeim þingfundi sem þá hefst, eins og venja er.

Meginreglan verður áfram að þingskjölum er útbýtt á þingfundi með tilkynningu forseta, en með nýju reglunum má einnig útbýta þingskjölum á vef fram til kl. 8 síðdegis. Útbýting þingskjala á vefnum hefur sama sess og þeim hefði verið útbýtt á þingfundi, m.a. varðandi fresti fyrir upphaf umræðu, en samkvæmt þingsköpum þurfa þingskjöl að hafa verið aðgengileg í tvo daga áður en hægt er að taka þau til umræðu. Sérstakir útbýtingarfundir heyra nú sögunni til. Þingmönnum verður tilkynnt ýmist með tölvupósti eða sms-skilaboðum, eftir því sem þeir óska, þegar ný þingskjöl hafa verið birt á vef Alþingis.

Breytingarnar hafa það einnig í för með sér að þingmenn hafa betri og skjótari aðgang að svörum við fyrirspurnum og skýrslum sem Alþingi hefur samþykkt að biðja um. Áður voru svör við fyrirspurnum og skýrslur ekki aðgengileg fyrr en að loknum þinghléum, en verða nú birt á vefnum jafnóðum og þau berast Alþingi.

Þótt þessi breyting, ein og sér, sé engin bylting í störfum Alþingis er hún gott dæmi um að Alþingi tileinkar sér tækninýjungar, og hefur raunar verið framarlega á því sviði undanfarin ár. Störfin á Alþingi eru í stöðugri framþróun.




Skoðun

Sjá meira


×