Erlent

Annar maður verið yfirheyrður

Breivik neitar að gefa upplýsingar um vitorðsmenn en bloggari sem bloggar gegn múslímum var yfirheyrður í gær.
Breivik neitar að gefa upplýsingar um vitorðsmenn en bloggari sem bloggar gegn múslímum var yfirheyrður í gær. nordicphotos/afp
Anders Behring Breivik neitar að gefa upplýsingar sem gætu skorið úr um það hvort hann hafi átt sér vitorðsmenn. Þetta segir saksóknarinn Christian Hatlo.

„Við höldum enn að hann hafi verið einn að verki en við getum ekki slegið því föstu. Hann neitar að gefa upplýsingar og það veldur okkur áhyggjum,“ segir Hatlo.

Lögregla í Ósló yfirheyrði í gær mann sem bloggar undir nafninu Fjordman. Bloggið er nefnt margsinnis í stefnuyfirlýsingu Breiviks, en það er blogg gegn múslímum. Lögreglan vildi ekki gefa nákvæmar upplýsingar um yfirheyrslurnar en sagði manninn hafa verið yfirheyrðan sem vitni.

Breivik hefur einnig verið spurður um ferðalög sín til tíu annarra landa og um búnað sem hann keypti fyrir árásirnar. Hann vildi ekki tjá sig um þau mál heldur. Breivik hefur þó sagt lögreglu að hann hafi ekki hugsað fyrir því að honum yrði haldið í einangrun eftir árásirnar. Allt annað hafi hann skipulagt.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×