Viðskipti innlent

Lánasafnið kostaði Landsbankann 121 milljarð

Landsbankinn í Lúxemborg.
Landsbankinn í Lúxemborg.

Heildarupphæðin, sem Landsbankinn borgaði til þess að kaupa lánasafnið af Landsbankanum í Lúxemborg, sem er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara, nam um 784 milljónum evra, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Sé það umreiknað í íslenskar krónur á núverandi gengi þá lánaði bankinn þessum félögum 121 milljarð. Sérstakur saksóknari rannsakar sérstaklega Landsbankann fyrir að hafa keypt þetta lánasafn af Landsbankanum í Lúxemborg.

Stærsti skuldarinn þar var Björgólfur Thor sem einn skuldaði 225,14 milljónir evra samkvæmt skýrslu Alþingis. Ekkert er minnst á Björgólf í tilkynningu sérstaks saksóknara né hefur hann verið kallaður til yfirheyrslu samkvæmt upplýsingafulltrúa hans.

Öll félögin, nema Bruce Assets Limited, eru nefnd í Rannsóknarskýrslunni þar sem lánasafnið er tíundað. Engar upplýsingar eru heldur að finna á veraldarvefnum um þetta huldufélag.

Í tilkynningu frá sérstökum saksóknara kemur einnig fram að lánveitingar til félaganna Hunslow S.A., Bruce Assets Limited, Pro-Invest Partners Corp og Sigurðar Bollasonar ehf. til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum séu til rannsóknar. Þessir aðilar, fyrir utan huldufélagið, fengu 13 milljarða að láni frá Landsbankanum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að það sé ljóst að Landsbankinn í Lúxemborg hafi að umtalsverðu leyti verið notaður til þess að fjármagna starfsemi fyrirtækja Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Þá þykja skýrsluhöfundum sérstaklega athyglisvert að stór hluti þessara skuldbindinga hafi orðið til rétt fyrir fall bankans.


Tengdar fréttir

Sjö færðir í skýrslutöku - grunur um stórfellt auðgunarbrot

Í tengslum við rannsóknir embættis sérstaks saksóknara á kaupum Landsbanka Íslands á hlutbréfum útgefnum af bankanum og lánveitingum bankans til hlutabréfakaupa fóru fram húsleitir á þremur stöðum í dag á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tilkynningu frá Sérstökum saksóknara. Þar kemur fram, eins og Vísir greindi frá, að sjö manns voru á sama tíma færðir til skýrslutöku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×