Erlent

Ný ríkisstjórn í kortunum í Finnlandi

Timo Soini Leiðtogi Sannra Finna var að vonum glaður þegar úrslit kosninganna lágu fyrir. Nordicphotos/Afp
Timo Soini Leiðtogi Sannra Finna var að vonum glaður þegar úrslit kosninganna lágu fyrir. Nordicphotos/Afp
Þingkosningar fóru fram í Finnlandi í gær. Bráðabirgðaniðurstöður í gærkvöldi bentu til þess að hægristjórn Mari Kiviniemi forsætisráðherra væri fallin. Þjóðernisflokkurinn Sannir Finnar var sigurvegari kosninganna og fimmfaldaði fylgi sitt.

Spá finnska ríkisútvarpsins YLE gaf til kynna að íhaldsflokkurinn Þjóðarbandalagið, sem á sæti í ríkisstjórn, hefði fengið flest þingsæti, 42 talsins. Jafnaðarmannaflokkurinn og Sannir Finnar komu þar á eftir með 41 sæti hvor. Miðflokkurinn, sem Kiviniemi veitir forystu, tapaði fjórðungi fylgis síns og hlýtur 36 þingsæti, gangi spáin eftir. Á finnska þinginu sitja 200 þingmenn.

Sannir Finnar lögðu í kosningabaráttunni áherslu á takmörkun innflytjenda og gerðu út á andstöðu við Evrópusambandið. Núverandi ríkisstjórnarflokkar eru allir fylgjandi Evrópusamstarfi en margir Finnar eru óánægðir með björgunarpakka ESB til Portúgals og fleiri ríkja.

Kiviniemi forsætisráðherra sagði úrslitin mikinn ósigur fyrir sinn flokk. Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna, sagði þau hins vegar söguleg; þau væru sannarlega frábær tíðindi.

Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna höfðu bent til þess að ríkisstjórnin myndi naumlega halda velli.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×