Innlent

Hvalreki enginn hvalreki lengur

Enginn vill fá hvalinn, sem rekur fyrir ströndum Hornstranda, upp í sína fjöru.
Enginn vill fá hvalinn, sem rekur fyrir ströndum Hornstranda, upp í sína fjöru. mynd/droplaug ólafsdóttir
Magnúsi Helgasyni, landeiganda í Fljótavík á Hornströndum, leist ekki á blikuna þegar hann horfði út á sjó á sunnudaginn var og sá þar hval á reki. Var hann um tuttugu metra frá landi.

„Það vill enginn fá þetta í sitt land, það er mikill fnykur af þessu og felst mikil fyrirhöfn í því að koma þessu út,“ segir hann.

Honum virðist hafa orðið að ósk sinni því ferlíkið, sem Magnús telur vera um fjögurra metra langt, rak í átt til Rekavíkur.

Það er því af sem áður var þegar menn börðust um hval er rak á land líkt og lýst er til dæmis í Fóstbræðrasögu þegar Þorgeir Hávarsson skoraði Þorgils á hólm eftir að sá síðarnefndi hafði tekið mesta kjötið af hvalnum. „Já, en það var farið að slá verulega í þennan, meira að segja fornmönnum hefði ekki litist á hann svona á sig kominn, jafnvel þótt þorrablót væri á næsta leiti,“ segir Magnús kankvís.

Fréttablaðið hafði ekki frekari fregnir af hvalhræinu í gær en ólíklegt má telja að hann reki á haf út.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×