Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Hoffenheim sem tapaði fyrir Bayer Leverkusen, 2-0, í slökum leik í þýskum úrvalsdeildinni í kvöld.
Eren Derdiyok kom Leverkusen yfir strax á tíundu mínútu leiksins og Sidney Sam gulltryggði svo sigurinn með marki ellefu mínútum fyrir leikslok.
Gylfi Þór hafði verið úti í kuldanum hjá Hoffenheim og ekkert spilað með liðinu síðan í lok október. Hann var tekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok en náði sér ekki á strik frekar en aðrir í liði Hoffenheim.
Liðið hefur nú leikið fimm leiki í röð án sigurs í deildinni en liðið er í áttunda sætinu með 20 stig eftir fjórtán leiki.

