Enski boltinn

Scott Carson til Tyrklands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos/AFP
Enski markvörðurinn Scott Carson hefur gengið til liðs við tyrkneska félagið Bursaspor frá West Bromwich Albion. Bursaspor spilaði í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð en leikur í Evrópudeildinni á komandi leiktíð.

„Ég er mjög spenntur og þetta virðist vera frábært félag,“ sagði Carson við breska fjölmiðla. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp. Meðal leikmanna Bursaspor er skoski framherjinn og landsliðsmaðurinn Kenny Miller.

„Ég sá leiki liðsins gegn Manchester United og Rangers á síðustu leiktíð og frammistaðan var mjög góð. Evrópudeildin er erfið deild en fyrst Bursaspor spilaði í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð getur liðið farið alla leið í Evrópudeildinni,“ sagði Carson.

Carson hefur spilað þrjá landsleiki fyrir England, síðast árið 2008. Hann spilaði 118 leik í treyju West Brom en hann kom þangað frá Liverpool sumarið 2008 á 3.25 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×