Körfubolti

Fannar: Best að skilja dúkkulísurnar eftir heima

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fannar lofar átakaleik í kvöld. Mynd/Daníel
Fannar lofar átakaleik í kvöld. Mynd/Daníel
"Ég hef það svakalega gott. Sit með kaffi á Tilverunni í Hafnarfirði og nýbúinn að borða dýrindis rauðsprettu," sagði fyrirliði KR, Fannar Ólafsson, sem bíður spenntur eftir oddaleik KR og Keflavíkur í kvöld.

"Þetta var máltíð sigurvegarans. Michael Jordan borðaði alltaf steik en hér á Íslandi borðum við fisk."

Fannar segir að það sé mikil tilhlökkun hjá KR-ingum fyrir leiknum í kvöld og því fari fjarri að menn séu að fara á taugum eftir tvö framlengingartöp í röð.

"Við erum bara spenntir. Það munar mjög litlu á þessum liðum og við vitum það. Okkur fannst við tapa síðasta leik frekar en að þeir hafi unnið hann. Við erum með reynslumikið lið sem fer ekki á taugum við smá bakslag. Við mættum beittir og vel stemmdir til leiksins í kvöld," segir Fannar en hann býst við átakaleik.

"Menn eiga að skilja dúkkulísurnar og aumingjaganginn eftir heima. Þegar flautað verður til leiks verður tekið karlmannlega á. Ég get alveg lofað því," sagði Fannar en hann hefur hitað upp með því að horfa á gamla leiki þar sem KR var að vinna titla.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×