Erlent

Hafsbotnin færðist til um 24 metra í jarðskjálftanum í Japan

Nýjar mælingar á vegum japönsku strandgæslunnar sýna að hafsbotninn hefur fluttst til um 24 metra skammt frá upptökum jarðskjálftans mikla fyrr í vetur.

Upptök jarðskjálftans voru austur af ströndinni við Honshu í um 400 kílómetra norðuraustur frá Tókýó en um var að ræða einn stærsta skjálfta í sögunni enda 9 á Richter að styrkleika.

Breytingin á hafnbotninum er fjórfalt meiri en Japanir hafa áður upplifað. Samkvæmt upplýsingum frá japönsku strandgæslunni olli stærsti jarðskjálfti í sögu Japans fram að þessum því að hafsbotninn undan ströndum Miyagi héraðs lyftist um þrjá metra.

Áður hefur komið fram í fréttum að ströndin við Honshu færðist til um þrjá metra í vesturátt vegna skjálftans og hann hafði mælanleg áhrif á snúning jarðarinnar.

Efnahagsafleiðingar skjálftans og flóðbylgjunnar í kjölfar hans eru þær mestu í sögunni en japönsk stjónvöld áætla að kostnaðurinn gæti orðið 34.000 milljarðar króna sem er á við yfir tuttugufalda landsframleiðslu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×