Innlent

Atlanta flytur hergögn fyrir Bandaríkin

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Íslenska flugfélagið Atlanta flýgur með hergögn fyrir bandaríska herinn til Afganistans. Flugmálastjórn Íslands veitti leyfi til flutninganna í samráði við innanríkisráðuneytið.

Atlanta flýgur með hergögnin til Afghanistans á vegum bandaríska vöruflutningamiðlarans National Air Cargo en Atlanta hefur umsjón með þrem Boeing 747 vélum National Air Cargo og annast rekstur þeirra.

Atlanta er íslenskt félag og fylgir því verklagsreglum sem Flugmálastjórn Íslands staðfestir. Hringurinn sem þessar vélar fljúga hjá Atlanta er oftast frá Frankfurt til Kuwait, þaðan til Afghanistans, og loks til Hong Kong áður en vélarnar snúa aftur til Frankfurt.

National Air Cargo er einn af vöruflytjendum bandaríska hersins og annast því oft vopna- og hergagnaflutninga fyrir herinn. Þar sem Atlanta sér um flug félagsins til Afghanistans hefur Atlanta m.a. séð um hergagnaflutning þangað. Með hergögnum er átt við búnað, varahluti, skrifstofugögn, lyf o.fl. en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Atlanta einnig annast vopnaflutninga til Afganistans á vegum National Air Cargo, þetta hefur þó ekki fengist að fullu staðfest.

Heimildir fréttastofu herma ennfremur að nokkur leynd hvíli yfir fluginu en Atlanta er gert að fljúga með ýmiskonar varning fyrir National Air Cargo. Þá herma heimildir fréttastofu ennfremur að flugmenn fái ekki alltaf uppgefið hvers eðlis varningurinn er sem þeir flytja um borð í vélum sínum.

Atlanta er íslenskt félag og fylgir því verklagsreglum sem Flugmálastjórn Íslands staðfestir. Í samtali við fréttastofu staðfestir upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar að Atlanta hafi heimild til að fljúga með vöruflokk sem nefnist ,,dangerous goods" eða ,,hættulegur varningur", en vopn eru í þeim flokki.

Þá fékk Atlanta útgefna sérstaka heimild til hergagnaflutninga um síðustu mánaðarmót en sú heimild var gefin út í samráði við innanríkisáðuneytið. Þetta staðfestir Flugmálastjórn í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×