Greint er frá andláti Egils Þórs í Morgunblaðinu í dag. Þar er námsferill Egils rifjaður upp en hann ólst upp í Breiðholti, gekk í Hólabrekkuskóla, Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lærði síðar félags- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.
Egill Þór helgaði sig fólki með fatlanir og geðrænan vanda í starfi. Hann vann sem stuðningsfulltrúi í búsetukjarnanum Rangárseli að loknu BA-prófi í félagsfræði frá 2015 til 2018.
Egill Þór var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 2018 til 2022 og varaborgarfulltrúi síðastliðin tvö ár. Hann var öflugur í félagsstörfum bæði í háskólanámi og í stjórnmálum. Þá stakk hann reglulega niður penna og birtist nokkur fjöldi pistla eftir hann í fjölmiðlum, meðal annars á Vísi.
Egill var opinskár varðandi baráttu sína við krabbameinið en hann greindist með eitilkrabbamein um mitt ár 2021.
Árið 2023 benti allt til þess að sigur hefði unnist á meininu. Bakslag kom upp síðastliðið sumar og dvaldi Egill Þór löngum stundum á sjúkrahúsi með óútskýrð veikindi.
Það var loks í lok ágúst sem Egill Þór fékk greiningu á nýju veikindunum. Það reyndist vera mergmisþroski sem mátti rekja til fyrri lyfjameðferða og var forstig hvítblæðis sem hann barðist við fram á síðasta dag.
Eftirlifandi eiginkona Egils Þórs er Inga María Hlíðar Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Þau eignuðust saman tvö börn, Aron Trausta fimm ára og Sigurdísi þriggja ára.