Enski boltinn

Franski landsliðsmarkvörðurinn dreymir um United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Lloris.
Hugo Lloris. Mynd/AFP
Hugo Lloris, markvörður Lyon og franska landsliðsins, segist vera spenntur fyrir því að komast til enska liðsins Manchester United í framtíðinni. United er enn að leita sér að eftirmanni Hollendingsins Edwin van der Sar sem leggur skóna á hilluna í vor.

Lloris er víst ofarlega á óskalista Sir Alex Ferguson en hann er 24 ára gamall, hefur spilað með Lyon frá árinu 2008 og á að baki 20 leiki fyrir franska landsliðið þar sem að hann hefur haldið níu sinnum marki sínu hreinu.

„Manchester United er frábær fótboltaklúbbur og er eitt af þeim félögum sem hafa náð mestum árangri í heiminun. Auðvitað væri það draumur fyrir mig að komast þangað," sagði Hugo Lloris.

„Það er slæmt að missa markvörð eins og Van der Sar því þótt að hann sé orðinn fertugur þá er hann enn að gera magnaða hluti. Ég tel að hann geti haldið áfram að spila," sagði Lloris sem endaði þó viðtalið á því að draga aðeins úr.

„Hvað mig varðar þá er ég ekkert að hugsa um að yfirgefa Lyon eins og staðan er í dag," sagði Lloris en framundan eru leikir við Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×