Innlent

Vinir Sjonna í góðri stemningu fyrir lokakvöldið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vinir Sjonna eru reiðubúnir í slaginn. Mynd/ Getty.
Vinir Sjonna eru reiðubúnir í slaginn. Mynd/ Getty.
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum að Íslendingar munu taka þátt í aðalkeppni Eurovision sem fram fer í Dusseldorf í kvöld. Benedikt Brynleifsson, betur þekktur sem Benni trommari, segir að stemningin fyrir lokakvöldinu sé góð.

„Það eru allir heilir og við hlökkum mikið til,“ segir Benni. Hann segir að gærdagurinn hafi farið í að taka rennsli og síðan hafi verið spilað fyrir dómnefndina í gærkvöldi. Tónleikahöllin hafi verið full í gærkvöld. „Dagurinn í dag er í rauninni alveg eins nema núna erum við að spila fyrir þá sem kjósa í gegnum síma,“ segir Benni.  

Íslenski hópurinn tók daginn snemma í morgun. „Við fórum að sjálfsögðu í gufuna og pottinn og tókum smá söngupphitun,“ segir Benni. Hann segir að það sé virkilega mikill hugur í íslenska hópnum. „Við ætlum bara að gera okkar besta og svo verður bara að koma í ljós hvernig það fer,“ segir Benni.

Öll fjölskylda Sjonna heitins er í Dusseldorf að fylgjast með því sem fram fer, eftir því sem fram kom í viðtali sem tekið var við Hreim Örn Heimisson og Þórunni Clausen á þriðjudag þegar undanúrslitin fóru fram. Hér má sjá það viðtal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×