Fótbolti

Leikur blásinn af í Svíþjóð vegna óláta stuðningsmanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn AIK hafa verið þekktir fyrir ólæti en þessi mynd er tekin í Stokkhólmi árið 1999.
Stuðningsmenn AIK hafa verið þekktir fyrir ólæti en þessi mynd er tekin í Stokkhólmi árið 1999. Nordic Photos / AFP
Viðureign AIK og Syrianska í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var í dag blásinn af eftir um 20 mínútna leik vegna þess að púðurkerlingu var kastað í höfuð eins dómara leiksins.

Helgi Valur Daníelsson var í byrjunarliði AIK í leiknum og staðan var 1-0 þegar atvikið átti sér stað. Tetah Bangura, leikmaður AIK, fékk rautt fyrir að traðka á markverði Syrianska og brást hluti áhorfenda á vellinum illa við. Þeir köstuðu púðurkerlingum inn á völlinn og fékk Daniel Wärnmark, annar aðstoðaradómaranna í leiknum, eina slíka í hausinn.

„Hann er með suð fyrir eyranu og heyrir ekki það sem er sagt við hann,“ sagði Lars Wilhelmsson, eftirlitsmaður leiksins við sænska fjölmiðla.

Eftir um 40 mínútur var ákveðið að blása leikinn af, þar sem að stuðningsmenn héldu áfram að láta öllum illum látum og ákveðið var að koma dómaranum undir læknishendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×