Erlent

Enn eykst stuðningur við norska Verkamannaflokkinn

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra. Mynd/AP
Fylgi norska Verkamannaflokksins, flokks Jens Stoltenbergs forsætisráðherra, hefur aukist mikið eftir hryðjuverkaárásirnar í Ósló og á Útey. Fylgi annarra flokka hefur minnkað samkvæmt skoðanakönnun Dagbladet sem fór fram í gær og fyrradag. Stuðningur við Verkamannaflokkinn mælist nú 41,7% sem er um 11% aukning frá því í júní. Stoltenberg þykir hafa staðið sig afar vel undanfarna daga.

Hægri flokkurinn mælist nú með 23,7% stuðning en var 28,5%. Þá er Framfaraflokkurinn með 16,5% en flokkurinn fékk 19,5% í skoðanakönnun Dagbladet í júní.

Samkvæmt skoðanakönnun Sunnmørsposten sem birt var á föstudag mældist Verkamannaflokkurinn með 38,7% fylgi en í sambærilegri könnun í júní fékk flokkurinn 28,1%.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram í Noregi í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×