Erlent

Fórnarlamb sýruárásar féll frá kröfu um refsingu á síðustu stundu

Ameneh Bahrami, írönsk kona, þurfti að þola sýruárás árið 2004 frá hendi manns sem hafði beðið um hönd hennar en hún hafnaði ráðahagnum. Hún er afmynduð í dag, en hér heldur hún á mynd af sér eins og hún leit út fyrir árásina.
Ameneh Bahrami, írönsk kona, þurfti að þola sýruárás árið 2004 frá hendi manns sem hafði beðið um hönd hennar en hún hafnaði ráðahagnum. Hún er afmynduð í dag, en hér heldur hún á mynd af sér eins og hún leit út fyrir árásina. Mynd/AFP
Írönsk kona sem er fórnarlamb sýruárásar krafðist þess á síðustu stundu að árasarmaður sinn yrði náðaður en hann hafði á grundvelli umdeildra laga verið dæmdur til að verða blindaður á sjúkrahúsi að kröfu konunnar.

Ameneh Bahrami, írönsk kona, þurfti að þola sýruárás árið 2004 frá hendi manns sem hafði beðið um hönd hennar en hún hafnaði ráðahagnum. Bahrami hafði krafist þess að qisas yrði beitt, en um er að ræða ákvæði í sharía löggjöf múslima sem er sjaldan beitt, ekki ósvipað Lex Talionis, lögum Hammúrabís, betur þekkt sem auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.

Íranskur dómstóll hafði árið 2008 fallist á kröfu konunnar um að árásarmaður hennar Majid Movahedi yrði að þola refsingu undir qisas sem fælist í því að hann yrði blindaður. Mannréttindasamtökin Amnesty International höfðu barist gegn því að refsingin yrði fullnustuð en þau hafa kallað beitingu ákvæðisins „grimma og ómennska refsingu sem jaðrar við pyntingu," að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

Framkvæma átti aðgerðina á árasarmanninum Movahedi á sjúkrahúsi í Tehran í gær en Bahrami krafðist þess á síðustu stundu að refsingin yrði ekki fullnustuð og því hélt Movahedi sjóninni. Bahrami, sem var ung og í blóma lífsins er ráðist var á hana, er algjörlega afmynduð eftir sýruárásina og aðeins með eitt auga. Hún sagði í samtali við íranska ríkissjónvarpið að hún hefði í sjö ár barist fyrir því að árásarmanni sínum yrði refsað með qisas, hinu umdeilda lagaákvæði, en hún hafi ákveðið að náða hann því það hafi verið hennar réttur. Hún segist hafa gert þetta fyrir þjóð sína, þar sem aðrar þjóðir hafi fylgst náið með framvindu málsins. Hún segist ekki hafa viljað hefnd, aðeins réttlæti, en hún hafi ekki viljað að refsingin yrði fullnustuð þar sem hún hafi ekki viljað svipta manninn sjóninni.

Bahrami segist engar skaðabætur hafa fengið frá fjölskyldu mannsins, en hún hefur aðeins krafist bóta fyrir greiðslu læknis- og umönnunarkostnaðar, um 150 þúsund evra, jafnvirði tæplega 25 milljóna króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×