Körfubolti

NBA-leikmenn fastir í Kína fram í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilson Chandler.
Wilson Chandler. Mynd/Nordic Photos/Getty
NBA-leikmennirnir Wilson Chandler, Kenyon Martin, J.R. Smith og Aaron Brooks tóku allir áhættuna og sömdu við kínversk lið á meðan að verkbannið var í gangi í NBA-deildinni. Þeir sem sömdu við evrópsk lið geta snúið aftur þegar NBA-deildin fer af stað á ný en reglurnar í Kína leyfa leikmönnunum hinsvegar ekki að stinga af.

Kínverjar settu þær reglur að leikmennirnir verða að klára tímabilið í Kína. Deildarkeppnin þar klárast um miðjan febrúar en úrslitakeppnin nær inn í marsmánuð. Yi Jianlian er ekki í sömu stöðu því hann er með kínverskt ríkisfang og getur því farið aftur til Bandaríkjanna þegar NBA-deildin byrjar á ný.

„Þeir hafa um tvennt að velja. Þeir geta spilað, fengið borgað og farið í NBA-deildina í mars eða að þeir geta ekki spilað, ekki fengið borgað og farið í NBA-deildina í mars," sagði einn forráðamaður kínversk liðs við Sporting News.  

Wilson Chandler, Kenyon Martin og J.R. Smith léku allir með Denver Nuggets liðinu á síðasta tímabili. J.R. Smith meiddist á hné á dögunum og á í deilum við sitt lið um hvernig sé best að meðhöndla þau meiðsli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×