Innlent

Lyfin talsvert dýrari á Íslandi

Cervarix Lyfið er mun dýrara hér á landi en í Svíþjóð.
Cervarix Lyfið er mun dýrara hér á landi en í Svíþjóð.
Stúlkur, undir 18 ára aldri, fá bólusetningu í Lundi í Svíþjóð án þess að borga krónu hafi bólusetningin hafist áður en þær urðu 18 ára. Á Íslandi fá aðeins 12 og 13 ára stúlkur sams konar bólusetningu sér að kostnaðarlausu.

Þær sem eru eldri geta keypt lyf vegna bólusetningarinnar í apótekum. Framvísa þarf lyfseðli þegar lyfin eru keypt en þrír skammtar eru nauðsynlegir.

Hjá Lyfju kostaði skammturinn af lyfinu Cervarix fyrir helgina 21.532 krónur en hver skammtur er hálfur millilítri. Skammtur af lyfinu Gardasil kostaði 23.937 krónur. Hjá Apoteket í Svíþjóð kostaði hálfur millilítri af Cervarix í gær 583 sænskar krónur, jafngildi tæpra 10.000 íslenskra króna. Skammturinn af Gardasil kostaði 884 sænskar krónur, jafngildi rúmlega 15.000 íslenskra.

Þórólfur Guðnason, yfirlæknir hjá sóttvarnalækni, segir hvert land hafa sinn háttinn á bólusetningunum. „Þetta fer eftir því fjármagni sem menn hafa. Það kom til tals að fleiri árgangar fengju bólusetningu sér að kostnaðarlausu en fjárveitingin dugði ekki.“

Þórólfur segir að upphaflega hafi menn haldið að einungis yrði hægt að bjóða einum árgangi bólusetningu án endurgjalds. Það hafi hins vegar verið hægt að bæta öðrum við. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×