Erlent

Sá síðasti sem barðist í fyrri heimsstyrjöldinni er látinn

Ákveðin tímamót urðu í veraldarsögunni í gærdag en þá lést síðasti hermaðurinn sem vitað er til að tók þátt í bardögum í fyrri heimsstyrjöldinni.

Um er að ræða Claude Choules sem lést í Perth í Ástralíu 110 ára að aldri. Choules fæddist á Englandi árið 1901 og var aðeins 14 ára gamall þegar hann hóf störf sem messadrengur í breska flotanum árið 1915.

Hann varð sjóliði á orrustuskipinu Revenge árið 1917 og ári síðar var hann viðstaddur þegar yfirmenn þýska flotans gáfust upp undan ströndum Skotlands þann 21. nóvember árið 1918.

Eftir stríðið fluttist Choules til Ástralíu og þar þjónaði hann sem sjóliðsforingi í ástralska flotanum við góðan orðstír í seinni heimsstyrjöldinni. Choules starfaði fyrir ástralska flotann fram yfir fimmtugsaldurinn þegar hann fór á eftirlaun.

Choules var giftur konu sinni Ethel um 80 ára skeið en hún lést 98 ára gömul um síðustu aldamót. Þau áttu þrjú börn saman, 11 barnabörn og 22 barnabarnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×