Enski boltinn

Robbie Fowler semur við tælenskt félag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Robbie Fowler sló í gegn hjá Liverpool en ferillinn hefur verið á niðurleið síðan hann gekk til liðs við Leeds
Robbie Fowler sló í gegn hjá Liverpool en ferillinn hefur verið á niðurleið síðan hann gekk til liðs við Leeds Nordic Photos/AFP
Fyrrum framherji Liverpool Robbie Fowler hefur ákveðið að ganga til liðs við tælenska knattspyrnufélagið Muang Thong United. Fowler sem er einn vinsælasti leikmaðurinn í sögu Liverpool spilaði tvö síðustu tímabil í Ástralíu.

„Hann hefur samþykkt að spila í framlínunni hjá Muang Thong United,“ sagði Ronnarit Suewaja knattspyrnustjóri félagsins við AFP fréttastofuna.

„Ég er fullviss um að koma hans verði mikil lyftistöng fyrir tælenskan fótbolta fyrst jafn frægur leikmaður og hann hefur samþykkt að ganga til liðs við okkur. Það er búið að ganga frá samningum og aðeins eftir að binda nokkra lausa enda,“ sagði Suewaja.

Fowler skoraði 183 mörk á átta árum í treyju Liverpool. Hann verður stærsta stjarnan í tælenskum fótbolta. Undanfarin tvö ár spilaði hann með North Queensland Fury og Perth Glory í áströlsku A-deildinni í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×