Körfubolti

Brynjar vann Helga eftir framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson
Brynjar Þór Björnsson Mynd/Valli
Brynjar Þór Björnsson fagnaði sigri á móti sínum gamla félaga úr KR Helga Má Magnússyni í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Jämtland Basket vann eins stigs útisigur á 08 Stockholm HR, 85-84, í framlengdum leik. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur í baráttunni um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina en bæði liðin voru búin að tapa þremur leikjum í röð.

Brynjar skoraði 7 stig á tæpum 22 mínútum í leiknum en hann hitti úr 2 af 4 skotum sínum. Helgi Már var í byrjunarliðinu og skoraði 9 stig og tók 7 fráköst á 29 mínútum.

08 Stockholm HR liðið byrjaði vel og var 21-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Jämtland vann hinsvegar annan leikhlutann 24-12 og þriðja leikhlutann 24-14. Jämtland var því komið með fimmán stiga forskot fyrir lokaleikhlutannm, 62-47.

08 Stockholm HR vann fyrstu sjö mínútur fjórða leikhlutans 22-9 og var skyndilega komið inn í leikinn. Lokamínúturnar voru síðan afar spennandi og liðsfélagi Helga tryggði liðinu framlengingu á vítalínunni. Jämtland Basket hafði síðan betur í framlengingunni eftir spennuþrungar lokamínútur.

Jämtland Basket er áfram í áttunda sætinu en hefur nú tveimur stigum meira en 08 Stockholm HR sem er í næsta sæti á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×