Erlent

Fjöldi stúlkna gengur til liðs við nýnazista í Þýskalandi

Á undanförnum árum hefur fjöldi stúlkna sem ganga til liðs við nýnazista í Þýskalandi tvöfaldast.

Þetta kom fram í viðtali í morgunþætti danska ríkisútvarpsins við blaðamanninn Andrea Röpke en hann hefur rannsakað nýnazistahreyfinguna í Þýskalandi allt frá því á níunda áratug síðustu aldar.

Röpke segir að fyrir nokkrum árum hafi stúlkur verið um 10% af nýnazistum í Þýskalandi en nú sé þetta hlutfall orðið 20% eða tvöfalt hærra. Á sama tímabili hefur ofbeldi hjá þýskum nýnazistum aukist verulega en það virðist ekki hafa haft áhrif á straum stúlkna í raðir þeirra. Raunar segir Röpke að stúlkurnar taki álíka mikinn þátt í ofbeldinu og karlarnir.

Stúlkur sem ganga til liðs við nýnazista sýna að þær séu meðlimir með ýmsum hætti, þar á meðal að ganga með rauð og svört hárbönd eða bera Þórskross um hálsinn.

Margar þessara stúlkna eru þó fljótar að yfirgefa nýnazistana. Ekki af því þær hafi áhyggjur af ofbeldinu og útlendingahatrinu heldur vegna þess að samkvæmt hugmyndafræði nýnazistanna er þeirra staður á heimilinu þar sem þær eiga að stunda hússtörfin og sjá um barnauppeldið. Á slíku hafa þær engan áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×