Erlent

Sérsveitarmenn tóku með sér mann úr húsi Osama

Talið er að Osama bin Laden hafi hafst við í afgirtu húsi í borginni Abbottabad í einhvern tíma. Pakistanskir hermenn hafa nú lokað húsinu af og halda fólki frá því. Fréttablaðið/AP
Talið er að Osama bin Laden hafi hafst við í afgirtu húsi í borginni Abbottabad í einhvern tíma. Pakistanskir hermenn hafa nú lokað húsinu af og halda fólki frá því. Fréttablaðið/AP
Pakistönsk stjórnvöld vissu ekki af árás á hús Osama bin Laden fyrr en hún var yfirstaðin. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki ákveðið hvort þau ætla að birta mynd af Osama bin Laden föllnum.

Bandarískir sérsveitarmenn sem réðust á hús hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Laden í Pakistan á mánudag höfðu á brott með sér eina manneskju, mögulega son bin Ladens. Þetta upplýsti pakistanska leyniþjónustan í gær.

Pakistönsk stjórnvöld gagnrýndu bandarísk yfirvöld harðlega vegna árásarinnar. Þau vissu ekki af henni fyrr en hún var afstaðin. Talsmaður bandarískra stjórnvalda sagði að fáir hefðu fengið að vita af árásinni áður en hún fór fram. Tryggja hefði þurft algera leynd.

Þyrlur sérsveitarmannanna flugu inn í pakistanska lofthelgi frá Afganistan án þess að þeirra yrði vart með því að þræða fjalladali og fljúga rétt yfir jörðu. Barack Obama Bandaríkjaforseti fylgdist með árásinni í beinni útsendingu. Þegar sérsveitarmennirnir tilkynntu að Osama bin Laden hefði verið skotinn sagði Obama: „Við náðum honum.“

Pakistanska leyniþjónustan var ekki jafn vel með á nótunum og baðst í gær afsökunar á því að hafa ekki sjálf fundið bin Laden. Húsið þar sem hann var veginn er í borginni Abbottabad, sem er um 100 kílómetra frá höfuðborginni Islamabad. Húsið er aðeins um 800 metra frá stórum herskóla.

Bandarísk stjórnvöld hafa enn ekki gert upp við sig hvort þau ætli að gera myndir af líki Osama, eða útför hans á hafi úti, opinberar. Talsmaður Bandaríkjaforseta sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort það yrði gert.

Talsmaður pakistönsku leyniþjónustunnar upplýsti í gær að sautján eða átján manns hefðu verið í húsinu þegar árás sérsveitarmannanna hófst. Auk bin Ladens féll Khalid sonur hans í árásinni, ásamt tveimur öðrum nánum samverkamönnum bin Laden. Þá féll ein kona, en ekki hefur verið upplýst hvernig hún tengdist bin Laden.

Ein af eiginkonum bin Laden, dóttir hans og átta eða níu börn til viðbótar voru í húsinu og lifðu af skotbardagann. Dóttirin, sem er tólf eða þrettán ára, varð vitni að því þegar faðir hennar var skotinn til bana. Eiginkonan, sem er jemenskur ríkisborgari, sagði fjölskylduna hafa flutt í húsið fyrir nokkrum mánuðum.

Talsmaður pakistönsku leyniþjónustunnar fullyrti að bandarísku hermennirnir hefðu tekið með sér einn fanga. Mögulega hefðu þeir ætlað að taka fleiri, en ekki getað það þar sem ein af þyrlunum sem þeir komu með bilaði. Flugmenn þyrlunnar náðu að lenda henni og sprengdu hana í loft upp á jörðu niðri.

Fréttavefur BBC hefur eftir heimildum að bandarísku sérsveitarmennirnir hafi haft á brott með sér harða diska sem sérfræðingar bandarísku leyniþjónustunnar CIA séu nú að rannsaka.

Bandarísk stjórnvöld settu 25 milljónir Bandaríkjadala til höfuðs bin Laden. Ekki hafði í gær verið upplýst hvort verðlaunaféð hafði verið greitt út.


Tengdar fréttir

Fimm handteknir við Sellafield

Fimm menn voru handteknir við kjarnorkuverið Sellafield í Bretlandi á mánudag grunaðir um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk. Samkvæmt heimildum AP-fréttaveitunnar eru mennirnir allir á þrítugsaldri og frá London, en þeir munu vera ættaðir frá Asíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×