Viðskipti innlent

Furða sig á afstöðu Lýsingar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Orri Hauksson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Orri Hauksson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Samtök iðnaðarins segja það vekja furðu að fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hafi í kjölfar gengisdóms sem féll í gær sent frá sér yfirlýsingu um að niðurstaða hans hafi ekki fordæmisgildi gagnvart fyrirtækinu.

Í málinu var fjármögnunarsamningur sem þrotabú Kraftvélaleigunnar gerði við Íslandsbanka dæmdur ógildur. Lýsing telur að samningur Íslandsbanka sé í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningum Lýsingar.

Samtök iðnaðarins segja að ekki sé að finna í umræddri yfirlýsingu skýringar á því að hvaða leyti samningarnir séu frábrugðnir samningi Íslandsbanka. Samtök iðnaðarins benda á að Lýsing lýsti kröfu vegna nokkurs fjölda fjármögnunarleigusamninga í þrotabú Kraftvélaleigunnar. Það veki því óneitanlega athygli að Lýsing hafi ekki látið reyna á lögmæti sinna krafna gagnvart þrotabúinu, samhliða kröfum Íslandsbanka hf., fyrir dómstólum.

SI krefjast þess einnig að Lýsing virði afdráttarlausa niðurstöðu Hæstaréttar og hefjist nú þegar handa við að endurreikna fjármögnunarleigusamninga í samræmi við dóm réttarins. Ennfremur hafa Samtökin hvatt félagsmenn sína sem eru í viðskiptum við Lýsingu vegna fjármögnunarleigusamninga að haga greiðslum sínum til fyrirtækisins í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar. 

Samtök iðnaðarins segja jafnframt að þau muni leita álits Fjármálaeftirlitsins á afstöðu Lýsingar til dóms Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

Lýsing telur gengisdóminn ekki fordæmisgefandi

Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing segir að þeir fjármögnunarleigusamningar sem fyrirtækið hefur gert sé í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningnum sem Íslandsbanki gerði við Kraftvélaleiguna. Hæstiréttur dæmdi í gær samning Kraftvélaleigunnar og Íslandsbanka ógildan. Þótt upphæð þess samnings hafi ekki verið há er um milljarðahagsmuni að tefla því að Íslandsbanki og Landsbankinn þurfa nú að endurreikna um 7500 samninga vegna fordæmisgildis dómsins. Lýsing segist hins vegar ekki geta litið á niðurstöðu dómsins sem fordæmi vegna fjármögnunarleigusamninga sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×