Innlent

Nóg til af ræktanlegu landi

Myndin er tekin undir Eyjafjöllum. Fréttablaðið/vilhelm
Myndin er tekin undir Eyjafjöllum. Fréttablaðið/vilhelm
Landssamtök landeigenda telja enga þörf á endurskoðun jarðalaga og vara við að eigendur bújarða verði settir á klafa átthagafjötra með því að verðgildi jarða þeirra verði rýrt með vanhugsaðri lagasetningu.

Tilefni ályktunar landssamtakanna í þessa veru er ræða Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Búnaðarþingi. Í henni boðaði hann frumvarp til breytinga á jarðalögum, „einkum til að formfesta skynsamlega landnýtingu með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar“.

Í tilefni þessara orða Jóns benda landssamtökin á að nóg er til af ræktanlegu landi á Íslandi og engin ástæða til að óttast um að fæðuöryggi sé stefnt í hættu vegna þess að skortur sé á landrými til landbúnaðar. Minna samtökin á að stutt sé síðan jarðalögin voru endurskoðuð og að ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn til breytinga. „Vonandi kemur aldrei sá tími aftur, þegar bændur vilja bregða búi, að þeir geti einungis selt eignarjörð sína fyrir sambærilegt verð og tveggja herbergja íbúð í Reykjavík kostar,“ segir í ályktuninni.

Jafnframt segir að verði ábúðarskylda á jörðum lögfest muni bújarðir vafalaust falla í verði. Lagabreyting í þá veru sé því bein aðför að bændum og jarðeigendum. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×