Innlent

Jón Gnarr fundar um ísbjörn í dag

Valur Grettisson skrifar
Jón Gnarr mun funda með Fjölskyldu- og húsdýragarðinum vegna ísbjarnar.
Jón Gnarr mun funda með Fjölskyldu- og húsdýragarðinum vegna ísbjarnar. Mynd / Arnþór Birkisson

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, mun funda með stjórn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins klukkan hálf tvö í dag samkvæmt upplýsingum frá ráðshúsinu.

Samkvæmt dagbók borgarstjórans á Facebook verður þetta fyrsti fundurinn þar sem rætt verður um að fá ísbjörn í garðinn, líkt og Besti flokkurinn lofaði fyrir borgarstjórnarkosningar, vorið 2010.

Jón lofaði því síðast í byrjun nóvember að tíðinda væri að vænta af málinu. Þá fullyrti hann að málið væri í vinnslu. Borgarbúar hafa mátt bíða eftir nýjum fréttum síðan þá en svo virðist sem málið sé í það minnsta komið á fundardagskrá.

Margir hafa gagnrýnt loforð borgarstjórans og sagt að kostnaðurinn sem myndi fylgja því að koma upp aðstöðu fyrir ísbjörn í garðinum yrði einfaldlega of mikill. Í byrjun júní tók Jón ekki afstöðu til þess hvort skynsamlegra væri að koma fleiri börnum inn á leikskóla í borginni eða koma upp aðstöðu fyrir ísbjörn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Hann sagðist bæði vilja ísbjörn og fleiri leikskólapláss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×