Innlent

Kökumeistarinn: Setti allt púðrið í eina köku

Erla Hlynsdóttir skrifar
Sigurður M. Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi sem bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins.
Sigurður M. Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi sem bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins.
„Ég ætlaði að senda aðra en ákvað síðan að setja bara allt púðrið í þessa köku," segir Sigurður M. Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi sem bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins. Landssamband bakarameistara efnir árlega til keppninnar og hefst sala á kökunni næstu helgi.

Sigurkakan er samsett úr mörgum lögum, þar á meðal eru franskur kexbotn, skyrfrauð, hindberjamauk og möndlubotn. Kakan er hjúpuð með hvítum súkkulaðihjúp og skreytt með makkarónukökum.

Sigurður segir það heiður að hafa unnið keppnina en neitar því aðspurður að ástæða sé til að gorta sig af sigrinum við samstarfsfélagana. „Þetta er samstillt átak hjá okkur til að efla fagið. Það er ákaflega gaman að sýna hvað það er mikil gróska í íslenskum bakaríum."

Kaka ársins 2011.
Kaka ársins ber með sér franska strauma en er búin til úr þjóðlegu hráefni. Þannig lagði Sigurður áherslu á að nota íslenskt smjör og íslenskt skyr við kökugerðina.

„Það eru margir búnir að smakka kökuna og fólk segir hana vera mjög frískandi," segir Sigurður.

Kaka ársins fer á ári hverju í sölu um konudagshelgina og er til sölu það sem eftir lifir árs í bakaríum sem tilheyra Landssambandi bakarameistara.


Tengdar fréttir

Kaka ársins: Skyrterta með hvítu súkkulaði og hindberjum

Kaka ársins 2011 hefur verið valin. Sigurður M. Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins sem Landssamband bakarameistara efnir árlega til. Sala á kökunni í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara hefst um næstu helgi, konudagshelgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×