Innlent

Jóhanna vísar á bug að hafa brotið jafnréttislög

Forsætisráðuneytið segir að Anna Kristín hafi verið metin
Forsætisráðuneytið segir að Anna Kristín hafi verið metin Mynd úr safni / GVA
Forsætisráðuneytið telur að faglega hafi verið staðið að undirbúningi og skipun Arnars Þórs Mássonar sem skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið hefur sent frá sér. Kærunefnd jafnréttismála komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna þegar hún skipaði Arnar í stöðuna.

Anna Kristín Ólafsdóttir taldi að á sér hefði verið brotið þegar Arnar var tekinn fram yfir hana. Kærunefndin tekur undir með Önnu Kristínu en ráðuneytið er ósammála því mati.

„Ráðuneytið vann málið út frá þeirri grundvallarforsendu að skylt sé að ráða hæfasta umsækjandann og að ekki kæmi til greina að víkja frá skýrri niðurstöðu í ráðningarferli sem væri í mjög föstum skorðum," segir í tilkynningunni.

Þá er tekið fram að ekki reyni á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nema talið sé að tveir umsækjendur af sitt hvoru kyninu séu jafn hæfir. Að mati ráðuneytisins var hins vegar ekki svo í þessu tilviki. „Í þessu sambandi skal bent á að kærandi var fimmti í röð í hæfnismati eftir tvær umferðir viðtala við umsækjendur," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Ennfremur er bent á að einu afskipti Jóhönnu við undirbúning skipunar var að leggja áherslu á að hæfasti umsækjandinn væri skipaður og sérstaklega væri að því gætt að jafnréttislög væru í alla staði virt.

Forsætisráðuneytið hefur þegar farið yfir úrskurð kærunefndar jafnréttismála og málið í heild með ríkislögmanni og mun fara ítarlega yfir það með honum og fleiri aðilum og bjóða kæranda til fundar um málið svo fljótt sem kostur er til þess að fara yfir það.




Tengdar fréttir

Jóhanna braut jafnréttislög við skipan í embætti

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipan í embætti skrifstofustjóra á skrifstoftu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×