Innlent

Boðar nýja stóriðjusamninga á komandi mánuðum

Iðnaðarráðherra sagði á Alþingi í dag alveg ljóst að samningar um stóriðju í Þingeyjarsýslum yrðu gerðir á komandi mánuðum. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir þetta enn eitt loforðið sem ríkisstjórnin geti ekki staðið við.

Forsætisráðherra boðaði nýlega í ræðu á fundi Samfylkingarinnar að framundan væru framkvæmdir í orkufrekum iðnaði fyrir þrjú til fjögurhundruð milljarða króna á næstu þremur til fimm árum. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óskaði eftir því að iðnaðarráðherra útskýrði þetta nánar.

Katrín Júlíusdótti iðnaðarráðherra sagði að forsætisráðherra hefði í ræðu sinni væntanlega verið að vísa í þá staðreynd að mál væru komin vel á veg á Norðausturlandi.

"Það er alveg ljóst að á komandi mánuðum verður gert samkomulag við einn eða fleiri kaupendur að orkunni sem til er í Þingeyjarsýslunum," sagði Katrín. Ráðherrann gat þó ekki, frekar en í síðustu viku, nefnt hvaða verkefni þetta væru.

Jón Gunnarsson benti á að ríkisstjórnin væri með frumvarp fyrir Alþingi um að þrengja nýtingartíma orkuauðlinda, sem myndi gera virkjanir óhagkvæmari og draga úr samkeppnishæfni landsins.

"Ég held því, virðulegi forseti, að allar þær bjartsýnisspár sem hér er verið að ræða - fjölmargt á döfinni, nýir virkjunarkostir - séu bara enn eitt loforðið sem ríkisstjórnin getur ekki staðið við," sagði Jón.

Ráðherrann sagði að orkusamningar væru ekki gerðir í þingsölum og þessvegna væri það ekki hlutverk þingmanna að úttala sig um einstaka aðila.

"Þess vegna hljómar þetta mögulega eins og við höfum engar fréttir að færa en fréttirnar eru þær að góður gangur er í viðræðum milli orkusala og orkukaupenda hér í landinu," sagði Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×