Innlent

Sigmundur Ernir um landsdómsmálið: Óþverralegt einelti

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að landsdómsmálið sé pólitísk aðför að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann segir málið vera kattahreinsun.

„Orsakir íslenska efnahagshrunsins eru margslungnar. Og helgast meira af stefnu, en stöku manni. Sú ákvörðun Alþingis að stefna einum manni fyrir dóm fyrir ábyrgðina á öllum þessum óförum er vægast sagt billeg. Og seint, ég held aldrei, telst hún stórmannleg," segir Sigmundur Ernir á vefsíðu sinni.

Hann segir að vissulega beri Geir sína ábyrgð á hruninu, ásamt svo mörgum öðrum, en hann beri ekki einn ábyrgð á hruninu. Hann segir niðurstöðu Alþingis vera ranga og lítilmannlega.

„Við erum stærra samfélag en svo að taka einn út úr og afgreiða reiði okkar vegna hrunsins á einum manni. Það er óþverralegt einelti," segir hann ennfremur. „Ég greiddi atkvæði gegn því að Geir og Árni, Ingibjörg og Björgvin yrðu dæmdir blórabögglar hrunsins. Ég var stoltur af þeirri ákvörðun þá. Og enn frekar nú …“

Vefsíðu Sigmundar Ernis er hægt að nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×