Innlent

Um 1200 styðja Geir

Geir og Ingibjörg mynduðu ríkisstjórn á Þingvöllum eftir kosningarnar 2007. Hér sjást þau í Ráðherrabústanum í janúar 2009 skömmu áður en ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar var slitið.
Geir og Ingibjörg mynduðu ríkisstjórn á Þingvöllum eftir kosningarnar 2007. Hér sjást þau í Ráðherrabústanum í janúar 2009 skömmu áður en ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar var slitið. Mynd/GVA
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, eru meðal þeirra sem styðja Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna ákæru á hendur honum fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Fjöldi fólks hefur skráð sig á vefsíðu sem opnuð hefur verið til stuðnings Geir en hátt í 1200 höfðu skráð nafn sitt á síðuna um klukkan tvö í dag.

Fjölmargir sjálfstæðismenn hafa ritað nafn sitt á vefsíðuna, þar á meðal þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Ásbjörn Óttarsson. Á listanum er einnig að finna nöfn Halls Hallssonar, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Ingva Hrafns Jónssonar og Óla Björns Kárasonar. Þá hefur Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra og þingmaður Alþýðuflokksins, ritað nafn sitt á síðuna til stuðnings Geir.

Sjálfur hefur Geir boðað til blaðamannafundur síðar í dag en málið gegn honum verður þingfest í Landsdómi eftir hádegi á morgun. Ákæran var gefin út í byrjun maí en brotin geta varðað allt að tveggja ára fangelsi.

Vefsíðu stuðningsmanna Geirs er hægt að skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×