Innlent

Mennirnir sem urðu eftir úti á sjó bera sig báðir vel

mynd úr safni
„Þetta er svona það versta sem maður kemst í að leita að félögum sínum á sjó," segir varaformaður Björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga en tveir liðsmenn sveitarinnar urðu eftir í sjó í um fjörutíu mínútur í gær. Mennirnir voru nokkuð þrekaðir þegar þeir fundust en hafa nú báðir náð sér nokkuð vel

Sem hluti af skemmtisiglingu á Sjómanandaginn á Hvammstanga í gær var sett á svið björgun úr sjó þar sem nokkrir björgunarsveitarmenn í flotgöllum stukku í sjóinn til skiptis af fiskibátum og voru síðan hífðir upp af félögum sínum.

Að lokinni æfingunni þegar snúið var til lands atvikaðist það að tveir menn stukku í sjóinn af öðrum fiskibátnum án þess að nokkur úr áhöfnum björgunarsveitarbáta sæi til. Þegar bátarnir voru á landleið var ljóst að tvo menn vantaði. Að sögn Péturs Arnarsonar varaformanns sveitarinnar var brugðist mjög skjótt við og allir bátar sendir til leitar. Fundust mennirnir um tuttugu mínútum síðar, en þeir höfðu þá verið í um fjörutíu mínútur í sjó.

Björgunarsveitin fundaði um atvikið í gærkvöldi og þar voru mennirnir báðir mættir á fundinn.

„Þeir báru sig vel en sá sem fór heldur verr þar sem það var gat á galla var þrekaður og fór til aðhlynningar á sjúkrahús. Hann var svo kominn á fundinn með okkur um níu leytið," segir Pétur.

En hvering tilfinning var það að leita að félögum sínum í gær?

„Þetta er svona það versta sem maður kemst í að leita að félögum sínum á sjó. Það var að hvessa og þeir báru hvíta hjálma þannig að það var erfitt að sjá þá. En vissulega er þetta ónota tilfinning sem fer um menn í litlu samfélagi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×