Innlent

Jón Bjarnason segir skilyrði ESB víðtæk

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þau skilyrði sem Evrópusambandið setur Íslandi eru víðtækari en skilyrði annarra ríkja í aðildarviðræðum og ekki verður séð að slakað mikið sé á kröfum ESB vegna smæðar landsins eða þess að hér sé bændastéttin fámenn miðað við það sem gerist með milljónaþjóðum. Þetta segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ráðherrann skrifar grein um aðildarviðræðurnar og rýniskýrslu Evrópusambandsins í Morgunblaðið í dag. Hann segir að í skýrslunni sé öllum aðalatriðum rétt og lýsi réttilega aðstæðum í íslenskum landbúnaði. Evrópusambandið viðurkenni þá sérstöðu sem íslenskur landbúnaður búi við, mm.a hvað varðar fábreytni í framleiðslu þar sem hér sé ekki stunduð kornrækt í neinni líkingu við það sem sé í löndum ESB. En í texta framkvæmdastjórnarinnar sé hvergi vikið að neinni tilslökun gagnvart því að Ísland taki að fullu yfir það stjórnkerfi sem gildi um landbúnað í Evrópu.

Jón Bjarnason segir að við aðild verði Ísland að tryggja beitingu of framkvæmd á réttarreglum ESB um landbúnað og dreifbýlisþróun. Þetta muni útheimta að ESB-reglum verði beitt um beingreiðslur og tryggt verði að komið verði á skipulagi sameiginlegs markaðar fyrir landbúnaðarafurðir. Þetta muni krefjast verulegrar aðlögunar að gildandi lögum og stjórnarháttum Evrópusambandsins.

Ráðherrann segir að ein veigamestu tíðindi skýrslunnar séu að Evrópusambandið kjósi að beita Ísland svonefndum opnunarskilyrðum  til að samningaviðræður um landbúnað og dreifbýlisþróun geti hafist. Slíkt sé ekki nýlunda og hafi t.d gerst í tilviki Króatíu. Króatar hafi þegar stofnað svokallaða greiðslustofu, þótt aðild hafi ekki verið samþykkt þar í landi og 518 manns starfi við hina nýju stofnun. Jón segir að opnunarskilyrði sem sett eru Íslandi af hálfu ESB séu á vissan hátt víðtækari en Króatíu því Íslandi sé gert skylt að leggja fram áætlun um hvernig það ætli að yfirtaka almenna landbúnaðarstefnu ESB ef til aðildar kemur.

Jón segir að ekki sé að sjá að hér sé slakað á kröfum ESB vegna smæðar landsins eða þess að hér sé bændastéttin fámenn miðað við það sem gerist með milljónaþjóðum. Hann segir að þau skilyrði sem ESB hafi sett komi verulega á óvart í ljósi yfirlýsingar íslensku samninganefndarinnar sem miðaðist við þá ákvörðun Íslands um að íslenskri stjórnsýslu og lögum yrði ekki breytt fyrr en aðildarsamningur hefði verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú liggi fyrir að slík yfirlýsing sé ekki fullnægjandi að mati framkvæmdastjórnar ESB.

Jón Bjarnason segir að það verði sett fyrsta verk að leita svara hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um hversu almenn eða ítarleg áætlun Íslands í landbúnaðarmálum eigi að vera. Ekki verði ráðist í gerð hennar fyrr en það liggi fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×