Íbúafundurinn var skipulagður af Félagi Sjálfstæðismanna í Skóga- og Seljahverfi. Helgi Áss Grétarsson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins var fundarstjóri fundarins.
Hann segir í samtali við fréttastofu hafa verið áhugaverð erindi á fundinum en auk þess hafi fjöldi fólks stigið í pontu til að lýsa skoðun sinni á málinu.
Þeir sem fluttu erindi á fundinum voru þau Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Kristján Hálfdánarson, formaður húsfélagsins í Árskógum 7, og Hilmar Björnsson arkitekt.

„Það voru á fundinum bæði íbúar í Árskógum en einnig íbúar sem hafa búið í Seljahverfinu í áratugi. Það var svo undir lok fundarins sem þessi ályktun var samþykkt,“ segir Helgi.
Ályktunin hljóðar svo: „Fjölmennur íbúafundur haldinn fimmtudaginn 16. janúar 2025 um skipulagsmál í Suður-Mjódd ályktar að vöruhúsið sem er að rísa við Álfabakka 2a verði fjarlægt.“